top of page
Search

Peppuð alla leið í Burnout!

V-in 4 og 5 skref til að komast af stað aftur


"Peppuð, peppaðri, peppuðust"! sagt með ýktri géggjun í röddinni og tilheyrandi líkamstjáningu.


Þetta var ég á leiðinni í ræktina í lok sumarsins 2016, mega tilbúin í svakalega æfingu! Ræktin var og er reyndar uppá þriðju hæð í svefnherberginu mínu, (ég er búin að æfa heima frá því 2006 og finnst það æði, segi betur frá því seinna), þar er ég með ketilbjöllur, hjól, lóð og TRX bönd. Ég var einmitt búin að ákveða að taka góða TRX æfingu.


Ég var mætt með orku í brúsa og tilbúin í slaginn við böndin. Byrjaði á léttum upphitunar hnébeygjum og svo ættlaði ég að gera æfingu sem krafðist þess að ég stæði á öðrum fæti og gerði háa hnélyftu á hinum fætinum. Búin að gera þessa æfingu mörg hunduð sinnum.


Fóturinn lyftist ekki! Hann haggaðist ekki frá gólfinu! Hvað var að gerast....??


Það var á þessu augnabliki sem líkaminn tók af mér stjórnina og sagði STOPP, hingað og ekki lengra!!

Ég skildi ekki hvað var að gerast. Reyndi aftur og aftur en ég bara gat ekki lyft fætinum! Hvorugum! Ég sem var svo peppuð í æfingu!

Ég fór niður...stóð í eldhúsinu, horfði á manninn minn (sem var sem betur fer heima) og byrjaði að reyna að útskýra hvað hafði gerst en komst ekki langt því ég fór bara að hágráta, brotnaði algjörlega niður. Búin á líkama og sál.

Ég var algjörlega örmagna á þessari stundu. Eftir að ég náði að hætta að gráta fór ég bara úr ræktarfötunum og uppí sófa.


Þetta var byrjunin á endinum á Burnoutinu eða Kulnuninni sem ég hafði verið að stefna í ansi lengi án þess að taka eftir því. Við erum að tala um nokkur ár, líklega svona 7-8 ár takk fyrir!!


Ég mun skrifa meira um þetta Burnout á blogginu síðar, hvað ég gerði til að lifna við aftur og hvernig er að komast aftur af stað í lífinu eftir svona áfall. Ég veit að þið sem hafið upplifað þetta ástand eða verið nálægt því vitið hvað ég er að tala um. Þetta er skrýtnasta ástand sem ég hef verið í og kalla ég nú ekki allt ömmu mína varðandi heilsuáskoranir.

Og ef þú hefur ekki verið þarna, þá sem betur fer áttu líklega erfitt með að skilja af hverju þetta var svona dramatískt, við þig vil ég bara segja - passaðu vel uppá þig!


En í þessum pósti ætla ég að segja ykkur frá því hvernig ég skilgreini þetta "fyrirbæri", það hjálpaði mér mikið að vinna úr þessu og halda áfram.


Winston Churchill sagði einhvern tíman: "If you're going through hell, keep going" (ef þú ert að fara í gegnum helvíti, haltu áfram).

Mér finnst þetta mjög rökrétt, en að sama skapi ekki auðvelt, það getur verið erfitt að muna eftir því að það er ljós þarna einhverstaðar og maður mun komast út úr þessu einn daginn.


Við höfum öll upplifað erfiða tíma og það er mikilvægt að minna sig á að það sem einum finnst erfitt finnst öðrum auðvelt og öfugt. Þannig að ef einhver er að fara í gegnum erfiða tíma er mikilvægt að sýna skilning, þó að þér þyki þetta ekkert mál. Við erum öll einstök, með okkar hæfileika og okkar sögu að baki.


Það er erfitt að vera á þessum stað...fara í gegnum helvíti. Það getur verið einmannalegt og þreytandi, sérstaklega ef maður fær ekki skilning frá umhverfinu og fólkinu í kring (sem betur fer fékk ég mikinn skilning og stuðning - ómetanlegt!!).

Mér fannst stundum eins og þetta ættlaði engann endi að taka, framtíðin var dimm, ég fór eitt skref áfram í bata en svo 3 afturábak. Og fannst ég bara hjakka í sama farinu endalaust.

Ég varð mjög neikvæð, sem er svakalega ólíkt mér! Hef verið þekkt fyrir að vera endalaust jákvæð (næstum því óþolandi) og alltaf getað séð eitthvað gott við hinar erfiðustu aðstæður.


Reglulega skall á mér fljóðbylgja af yfirþyrmandi tilfinningum sem ættluðu stundum að kæfa mig.

Einn daginn var ég reið og sár, pirruð og full af sektarkennd. Spurningar og sjálfsásakanir eins og "Af hverju sá ég þetta ekki fyrir", "Af hverju leyfði ég þessu að fara svona langt", "Þetta er allt mér að kenna".


Næsta dag fann ég fyrir sorg, syrgði "gömlu" mig, "gamla" lífið mitt. Síðan fylltist ég bjartsýni, hamaðist við að finna ljósið í þessu myrkri...og á endanum datt ég aftur inní myrkrið. Svona gékk þetta fram og til baka.


Ég veit að þetta hljómar mjög dramatískt...en það er líka mjög dramatískt og lamandi að missa stjórnina á líkamanum þegar það er einhvern vegin engin útskýring á því, og út á við gerðist ekkert, sést ekkert utan á manni. Ekki hægt að setja puttann á einhverja augljósa ástæðu eða sjá þetta í speglinum. Allt lítur bara út eins og það á að vera...en það er það ekki.

Og maður í alvöru missir stjórnina...það vantar ekki að maður vilji gera hluti t.d. fara í afmælisboð, hitta vinkonu á kaffihúsi, fara í göngutúr, ræktina og meira að segja brjóta saman þvottinn... Líkaminn bara hlýðir ekki!! Og ef maður pínir sig í að gera það sem líkaminn er búinn að segja nei við, þá fær maður heldur betur að kenna á því næstur vikur jafnvel!


Þetta gerir það að verkum að maður setur upp mjög góða grímu til þess að það komist nú ekki upp um mann, hálfpartinn af því að maður trúir þessu ekki sjálfur og veit eiginlega ekki hvernig maður á að haga sér eða hvar á eiginlega að byrja á að útskýra hvað er í gangi.

Sem betur fer er umræðan um Burnout / Kulnun orðin opnari og þetta er núna orðið þekkt ástand sem Alþjóðaheilbrigiðismálastofnunin viðurkennir. Þeir tala reyndar um þetta sem vinnutengt ástand, en ég vil meina að þetta sé lífstengt ástand, því ef maður er orðinn andlega þreyttur í vinnunni og kemur svo heim í krefjandi heimili eða lífsstíl...þá er maður ekkert að hvílast þó maður sé búinn að stimpla sig út úr vinnunni. Maður aðskilur ekkert andlegu þreytuna endilega... Allavega í mínu tilfelli var þetta mjög samtvinnað.


Bataferlið var langt.


Það tók mig um það bil ár að ná mér á strik líkamlega, fara að höndla lífið og að vera til aftur. Hætta að detta í örmögnum eftir t.d. að fara í of langan göngutúr, við erum að tala um bara svona 40 mínútur eða ef ég gékk of hratt, fá fólk í heimsókn, eða fara eitthvað í heimsókn, það gat tekið mig uppí 2 vikur að jafna mig eftir að gera eitthvað sem var út úr norminu. Bara tilhugsunin um að það væri eitthvað framundan varð stundum til þess að ég varð bara lömuð og örmagna.


En það sem kom mér mest á óvart var andlega hliðin. Það tók miklu lengri tíma að ná henni út úr svartnættinu. Það var auðvitað þessi yfirþyrmandi óvissa um hver ég væri núna fyrst ég hefði tapað sjálfri mér og gleðinni, gæti ekki gert það sem ég gerði áður og allt það. Ekki það að ég vildi endilega fara þangað aftur og halda áfram að vera sú manneskja...en ég meina þegar þú stendur allt í einu uppi 43 ára og ert ekki sú sem þú varst...hver ertu þá??


Það var ekki fyrr en ég ákvað að kafa ofaní þetta og finna einhvern botn í málið að hlutirnir fóru að gerast. Ég hef í gegnum allar mínar áskoranir alltaf leitað að lærdómnum í því sem ég er að fara í gegnum, skoðað hvernig ég geti orðið sterkari, vitrari og reyndari. Ekki alltaf auðvelt en ég get lofað því að ef þú horfir á erfiðleika með þessu viðhorfi mun það allavega gera ástandið bærilegra og jafnvel spennandi! Hey þú ert að fá að læra eitthvað nýtt, sem gerir það að verkum að næst þegar samskonar áskorun kemur upp, muntu líklega ekki taka eftir henni þar sem þú kannt að díla við hana...og þar með er það engin áskorun.

Þú 1 - Lífið 0!


Þannig að ég settist niður og fór að skoða þetta Burnout / Kulunun eða hvað sem við eigum að kalla þetta ömurlega ástand.


Úr þessu varð til heill fyrirlestur og vinnustofa sem ég kalla "Að rísa úr öskunni", og hefur hjálpað bæði mér og þeim sem hafa tekið þátt, að skilja ferlið og vinna sig út úr því með verkefnum.


Hér er smá brot af því sem ég fór í gegnum með sjálfa mig í upphafi til að skilja betur ástandið og hvað var að gerast með mig og eitthvað sem ég fer í á námskeiðinu.

Vonandi hjálpar þetta þér ef þú ert á svipuðum stað.


Stig 1 - Vakning


Þetta skref er svona "AHA" augnablikið, þegar þú vaknar upp og sérð hvað er búið að vera í gangi og hvert þú ert komin. Þetta er momentið þegar þú skellur harkalega á botninn.

Mitt moment var þegar ég gat ekki lyft fótunum lengur. Líkaminn hætti að hlýða mér.


Þetta er mjög mikilvægt stig en að sama skapi mjög erfitt, það er sárt að skella á botninum. En ef þú fattar ekki hvað er í gangi þá muntu bara halda áfram og skellurinn verður bara stærri.

Það er ekki fyrr en þú VAKNAR og gerir þér grein fyrir ástandinu að þú getur farið að gera eitthvað í því. Þangað til ertu bara að lemja hausnum í vegginn, föst í einhverri vanlíðan sem þú jafnvel gerir þér ekki almennilega grein fyrir að sé til staðar, eða af hverju hún er til staðar, óhamingjusöm og óánægð en samt að halda áfram...

Þú getur ekki leyst vandamál sem þú sérð ekki.


Það er hérna sem þú gætir fundið fyrir miklum pirringi bæði útí ástandið og sjálfa þig. Hérna blossa upp sektarkennd og sjálfsásakanirnar. Hugsanir eins og "af hverju, hvernig, hvers vegna" og það allt.

Þetta er eðlilegur partur af ferlinu, svo ekki leggja of mikla merkingu í þessar hugsanir.


Á þessu stigi er mikilvægt að að minna sig á að maður er mannlegur! Það er ekki til neitt sem heitir fullkomið líf og maður er aldrei kominn í mark heldur er lífið lærdómur.

Hér þarftu að sýna þér umburðarlyndi, kærleika og samkennd. Ekki fara að reyna að finna sökudólg, þetta er búið og gert og miklu betra að fókusera á hvað þú getur lært af þessu og hversu sterk þú verður þegar þú ert komin í gegnum þetta ferli.



Stig 2 - Viðurkenna og Vingast


Þetta fannst mér erfiðasta stigið og tók mig lengstan tíma að komast í gegnum, get svarið að ég hélt að ég yrði bara föst þarna að eilífu!


Þetta stig einkenndist af mikilli sorg...mér fannst ég eiginlega fara í gegnum hálfgert sorgarferli, sorg yfir því hver ég var, hvað ég gat og hafði, hvert ég var að stefna, hvernig lífið var...og yrði ekki lengur.

Ég var farin að fatta að ég yrði aldrei söm, ég kæmi út úr þessu ástandi sem breytt manneskja, með önnur þolmörk bæði andlega og líkamlega og með aðra sýn á lífið. Þetta var mjög skrýtið ferli...


Ég fann líka mikið fyrir reiði í minn garð og stundum útí aðra sem voru partur af því að þetta ástand skapaðist, sem þegar upp er staðið höfðu ekkert með þetta að gera þannig lagað, það er alltaf bara einn aðili sem getur tekið ábyrgð á manni...og það er maður sjálfur.

Óþolinmæði og pirringur voru tilfinningar sem komu reglulega upp, ásamt SKÖMM.

Ég skammaðist mín fyrir að hafa "lent" í þessu og vera í þessu ástandi!

Þvílíkur aumingi! Get ekki gert neitt! Ég er bara ónýt og einskis virð!


Þarna kemur held ég inní Íslenska ofurkonan...og bara Íslenska hugarfarið duga eða drepast, sýna ekki á sér neinn veikleika og fara áfram á hnefunum sama hvað það kostar! (ég mun ræða þetta í öðru bloggi).


Það er klárlega mjög erfitt að sætta sig við svona breytt ástand. Og að vera yfirhöfuð bara breytt manneskja. En það er svo mikilvægt að VIÐURKENNA stöðuna og VINGAST við hana. Annars kemst maður ekki lengra.

Lykilorðin hér: Þetta gerðist, höldum áfram!


Ég reyndi eftir fremsta megni að setja fókusinn á framtíðina og segja mér að bráðum myndi allt verða betra, mér myndi líða betur og ég kæmist út úr þessu svartnætti.

Sterkari, vitrari og tilbúin í næsta kafla í lífinu!


Stig 3 - Virkja


Þarna fór mér loksins að finnast ég vera á lífi aftur!! Loksins sá ég fyrir endann á þessu og fór að upplifa aftur eftirvæntingu og gleði.

Mér fannst ég vera að skilja sorgina, sársaukann og allar vondu tilfinningarnar eftir og loksins sjá fram á veginn, sjá nýjar hliðar á lífinu og framtíðinni. Sjá nýju mig!

Nú var komið að því að VIRKJA þekkinguna sem þetta ferli var búið að gefa mér!


Mér fannst ég vera sterk aftur og einhvern vegin öðruvísi sterk, sterkari á svo miklu dýpra leveli...


Mikið var þetta svakalega góð tilfinning!! Léttir, bjartsýni, eftirvænting og ég get svarið að það var bara kominn smá fiðringur í magann yfir framtíðinni.


Nú var kominn tími til að hanna "nýju mig"!


Þá koma upp spurningar... Hver vil ég vera? Hvert vil ég fara? Hvernig vil ég hafa þetta?


Hvar á ég að byrja?!


Þetta eru allt spurningar sem er mikilvægt að þú svarir og þú ert sú eina sem getur svarað þeim en það getur hins vegar verið svoldið snúið að finna út þessu og virkilega vita í hvaða átt þú vilt fara.


Eitt gott skref er að skoða hvar hlutirnir eru í lagi og hvar ekki, því oft þegar við horfum á lífið í heild finnst okkur það "Bara fínt". En þegar við rýnum í alla þættina sem skipta máli í lífinu þá kemur oft í ljós misræmi milli þessara þátta, þá skilur maður af hverju lífið virðist vera stundum hálf skrykkjótt.


Tólið sem ég nota til að hjálpa fólki að meta hvar er best að byrja heitir Lífshjólið, þar er ég búin að setja saman flott ferli til að hjálpa þér að meta stöðuna og taka næstu skref.

Smelltu hér til að fá Lífshjólið sent svo þú getir byrjað að skoða stöðuna þína (settu Lífshjólið í "subject/efni").


Taktu þér tíma í að hanna framtíðina og gera hana spennandi en mundu samt að passa uppá heilsuna þína og vellíðan.


Það er eitt atriði sem er mikilvægt að gera þegar maður er búinn að hanna framtíðina...það er að sjá hana fyrir sér og upplifa hana! Þess vegna er oft talað um framtíðarsýn.


Á ensku heitir þetta Visualising. Það sem þetta þýðir í raun er bara að búa til mynd í huganum af því sem að þú vilt upplifa.

Ok nú ertu kannski að hugsa..."hvaða vitleysa er þetta, það virkar ekkert". En það hafa verið gerðar margar rannsóknir á hvernig það að búa til hugarmyndir virkar og útskýra hvernig heilinn gerir ekki greinarmun á raunveruleikanum eða ýmindun. Hér er grein sem útskýrir þetta frekar ef þig langar að kafa dýpra.


Ok...hvernig gerir maður þetta þá...


Svona finnst mér best að byggja upp spennandi hugarmynd:


1. skref

Byrjaðu á því að hanna sýnina...framtíðarsýnina, hvort sem það er allt lífið, ákveðnir þættir, hver þú vilt vera, gera, eiga, fara... Það er algjörlega undir þér komið hvað þú setur fóksinn á.


2. skref

Veldu 1 eða 2 lög sem láta þér líða vel, hvetja þig áfram, fylla þig eldmóði og jákvæðni, stilltu þau þannig að þau spilist aftur og aftur. Hér er mitt uppáhalds lag fyrir þessa dásamlegu stund.


3. skref

Komdu þér þægilega fyrir og vertu viss um að þú fáir frið, lokaðu augunum og byrjaðu að sjá fyrir þér hugar-myndirnar af framtíðinni, framtíðarsýnina þína.

Þetta er eiginlega eins og að búa til bíómynd!


Mikilvægt:

- Sjáðu myndina eins og hún væri að gerast akkúrat núna, sjáðu sjálfa þig í myndinni, sjáðu fólkið sem þú vilt hafa með þér, sjáðu umhverfið. Horfðu á þetta eins og þú sitjir í bíósalnum að horfa á þig leika í bíómyndinni á skjánum.

-Næst skaltu stíga inní bíómyndina og taka þátt í því sem er að gerast, horfa á þetta frá þínu sjónarhorni með þínum eigin augum.

- Leggðu þig fram við að sjá og upplifa öll litlu smáatriðin...litina, hljóðin, lyktina, bragðið...allt!


4. skref

Hér er svo lykilatriðið!


Settu eins mikið af jákvæðum tilfinningum í þessa bíómynd og þú getur!

Leyfðu þér að upplifa allar yndislegu og góðu tilfinningarnar við það sem þú sérð. Leyfðu þeim að flæða um þig, finndu fyrir þessum tilfinningum í hverri einustu frumu í líkamanumu. Leyfðu þér að brosa og vera í sæluvímu!


Ef við setjum ekki sterkar tilfinningar í myndina okkar, framtíðarsýnina, virkar hún ekki nógu raunveruleg fyrir heilann til þess að hann upplifi þetta sem alvöru minningu, um að svona sé lífið þitt í alvöru. En það er einmitt það sem við erum að reyna að gera, láta heilann upplifa þetta sem raunverulegt ástand, eitthvað sem hann kannast við og að svona eigi þetta nákvæmlega að vera. Með því að gera það setjum við undirmeðvitundina í gang og hún fer að láta þessa mynd verða að veruleika...það er akkúrat hlutverk undirmeðvitundinnar - skrifa betur um það seinna.


5. skref

Taktu frá 5-10 mínútur daglega til að virkilega upplifa og vera í þessari bíómynd af framtíðinni. Áður en þú veist af verður þetta ekki framtíð heldur nútíð!


Trúðu mér ég er búin að nota þessa aðferð svo oft í lífinu og hún virkar alltaf þegar ég vanda mig og set tilfinningarnar með. En það er ekki nóg að gera þetta bara einu sinni tvisvar...þú verður að halda áfram því það tekur smá tíma að fá heilann til að trúa því að þetta sé raunveruleikinn.


Og ef þér líður eins og lygara...hugsaðu þetta þá bara á þennan hátt...

Í versta falli áttu rólega stund með sjálfri þér og ert að hugsa um hluti sem láta þér líða vel meðan þú ert að fara í gegnum þennan erfiða tíma í lífinu...þannig að í rauninni hefurðu engu að tapa er það?


Að lokum langar mig bara að segja þér að ef þú ert stödd á þessum erfiða, dimma stað...haltu áfram, þú ert komin af stað í mjög áhugavert, en líka erfitt, ferðalag og þú munt seinna meir sjá hvernig þetta gerði þig sterkari, vitrari og meðvitaðri um sjálfa þig og hvernig ÞÚ VILT hafa lífið.


Halldóra

334 views0 comments
bottom of page