top of page
Search

Hvernig er best að mæla testósterón hjá konum...?



Sú staðreynd að karlmenn hafi ekki einkarétt á testósteróni er sem betur fer að sýjast smátt og smátt inn hjá fólki, það virðist þó ganga frekar seint hjá sumum í læknastéttinni og er alltof oft bara til umræðu ef konan er komin yfir tíðalok og er greind með HSDD (Hypoactive sexual desire disorder), þó það sé vissulega að breytast og ég sé mikinn mun frá því ég fór að skoða þetta fyrir tæpum 2 árum. Framleiðsla á testósteróni hjá konum minnkar með árunum og fellur mun fyrr og hraðar en hjá karlmönnum, þetta getur gerst jafnvel vel fyrir fertugt.



Kíkjum á nokkrar staðreyndir um konur og testósterón:

  • Konur framleiða þrisvar sinnum meira magn af testósteróni en estrógeni á frjósemisárunum, ástæðan fyrir því að fólki yfirsést það er vegna þess að mælieiningarnar eru ekki þær sömu, en ef bæði hormónin eru umreiknuð með sömu mælieiningunni þá sést hversu miklu meira af testó við framleiðum.

  • Testósterón hefur áhrif á miklu meira en bara kynlöngun og getu til að fá fullnægingu. Nú er vitað að testósterón spilar mikilvægt hlutverk í viðhaldi vöðva, beinheilsu, hjartaheilsu, hefur áhrif á ýmsa heilastarfsemi s.s. hugræna virkni, einbeitningu, minni og sálræna líðan.

  • Konur sem eru lágar í testósteróni en fá hormónauppbót finna oft fyrir bættu þreki og orku, bætingu á vöðvamassa og vöðvastyrk, betri einbeitningu, skýrari hugsun og bættu minni, betri svefngæði, meiri kynlöngun og betri fullnægingu.

Hér sést vel munurinn á magninu sem við framleiðum af testósteróni og estrógeni


Hvernig veit ég hvort mig vanti testósterón?


Þegar konur byrja á hormónauppbótarmeðferð er yfirleitt byrjað á að gefa estrógen og prógesterón (ef konur eru með leg). Þessi tvenna gerir oft gæfumuninn og konur endurheimta lífið aftur.

En stundum dugar það ekki til og það er eins og eitthvað vanti uppá...

Þá getur verið gagnlegt að prufa að bæta við testó, það á að vera nóg að fara eftir einkennum til að byrja með og mæla gildin eftir nokkra vikna notkun, en margir læknar vilja mæla testósterón í upphafi sem er bara gott mál, þá hefur maður viðmiðunargildin.


Það er misjafnt hvernig læknar túlka testósterón blóðprufur hjá konum, eins og með svo margt þegar kemur að kvenheilsu þá vantar mikið uppá rannsóknir og skilning þegar kemur að notkun testósteróns hjá konum.

Samkvæmt NHMS (alþjóðleg, þverfagleg samtök heilbrigðisstarfsfólks og sérfræðinga sem sinna breytingaskeiði og hormónaheilsu) þá hefur útreikningur á svokölluðum FAI virkað best þó það þurfi að sjálfsögðu að horfa á heildarmyndina og má alsekki gleyma að horfa á klínísk einkenni.


Mér finnst gott að útskýra þetta eins og bankareikninginn...

Ef þú átt 50.000 kr inná lokaðri bók og 20.000 kr inná debet reikningnum þínum áttu samtals 70.000 kr en þú getur samt bara notað 20.000 því hitt er bundið...

Testósterón virkar bara nákvæmlega eins, við erum með ákveðið heildarmagn en hluti af því er bundinn í svokölluðu Sex hormone binding globuline (SHBG) og ekki laust til notkunar.

Til þess að komast að því hversu mikið er hægt að nota þarf að mæla þetta SHBG og reikna út svokallað Free Androgen Index (FAI).


Það eru ekki allir læknar sem vita að það þarf að mæla þetta svona eða kunna að reikna þetta út (já ég veit það er frekar skrýtið en þannig er það bara eins og er) þannig að ef þú ert með blóðprufuniðurstöðurnar þá geturðu prufað að reikna þetta út sjálf með því að setja tölurnar inní þessa reiknivél en ákjósanleg viðmið fyrir konur eru 2-5% FAI.


Þannig að þegar þú ferð til læknis og biður um mælingu á testósteróni er gott að spyrja hvort hann sé ekki örugglega að mæla SHBG líka og reikni út FAI fyrir þig.

DÆMI um blóðprufu:

Testosterone nmól/l... 0,10 SHBG nmól/l... 134 Útkoma úr reiknivél: 0.07% FAI Sem er alltof lágt miðað við að gildin ættu að vera á milli 2-5%


  • Þó að reiknivélin hér að ofan gefi þér ákveðna tölu þarf samt að horfa á fleira, t.d. getur FAI verið hátt eða yfir mörkum ef að SHBG er lágt og þannig gefið til kynna að það sé nóg til að fríu testósteróni, en SHBG getur verið lágt ef kona er t.d. í yfirþyngd.


Hvað svo?

Það er mikilvægt að mæla gildin aftur eftir ca. 3-6 mánuði og ræða við lækninn þinn um hvernig þér líður og hvað þetta er að gera fyrir þig.


Nokkur atriði sem er gott að hafa í huga...

  • Það þurfa ekki allar konur testósterónuppbót sumar konur eru jafnvel með of mikla testósterónframleiðslu eins og gerist oft þegar konur eru að glíma við PCOS.

  • Það tekur yfirleitt lengri tíma að finna áhrif af testósteróni heldur en estrógeni, getur alveg verið 3-6 mánuðir.

  • Það er margt sem getur haft áhrif á upplifun okkar varðandi kynlíf og ekkert endilega að testósterón sé lausnin.

  • Einkennin sem þú finnur fyrir geta verið tengd öðru en lágu testósteróni og því mikilvægt að fylgjast með einkennunum og ræða við lækninn ef ekkert breytist eftir nokkra mánuði á testósterónuppbót.

  • Það eru ekki til skammtastærðir fyrir konur þannig að við notum það sama og karlmenn. Testógelið kemur í litlum pokum sem við látum duga í ca. 7- 10 daga (karlmenn nota 1 á dag).

  • Ég sjálf byrjaði á að nota lítinn dropa af testósteróngelinu daglega, þegar ég fór svo í mælingu mældist ég í góðu meðal gildi og hef eftir það bara viðhaldið mér með því að nota gelið ca. 3x í viku.

  • Best er að bera á svæði sem hafa ekki hársekki...mér finnst best að bera á mjöðm/rasskinn þar sem innanverð læri og handleggir eru svæði sem ég nota til að bera á mig estrógel.


Hér geturðu lesið meira um testósterón - Testósterón er það eitthvað fyrir konur?


Heimildir: Balance-Menopause Dr. Louise Newson https://balance-menopause.com/uploads/2022/01/Testosterone.pdf







2,545 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page