Ég er ekki læknir og því er allt hér sett fram eingöngu sem umhugsunarefni fyrir konur til að hafa í huga varðandi sitt breytingaskeið
Greining á því hvort kona sé komin á breytingaskeiðið þarf ekki að vera flókið fyrirbæri, sérstaklega hjá konum sem eru eldri en 45 ára, þá ætti alltaf að horfa á einkenni frekar en blóðprufur. HÉR finnurðu lista yfir einkenni breytingaskeiðsins.
Einkennin eru svo ótrúlega mörg og oft svo furðuleg, en ástæðan fyrir því að við getum fundið einkenni víðsvegar um líkamann er sú að allar frumur líkamans eru með estrógen viðtaka og þegar það lækkar hefur það áhrif svo víða. Heilinn er t.d einn af þeim stöðum sem treystir á estrógen og þegar það lækkar hefur það áhrif á ýmsar stöðvar í heilanum sem gegna mikilvægu hlutverki í líðan okkar, þess vegna upplifa margar konur breytingu á andlegri líðan allt frá depurð og pirringi yfir í viðkvæmni, grát og jafnvel hamlandi kvíða. ⛔️ Geðlyf eiga aldrei að vera fyrsta meðferð við breytingaskeiðs einkennum, sérstaklega þegar það er engin saga um geðvandamál! ⛔️ Vertu viss um að læknirinn þinn sé vel að sér í breytingaskeiðinu og viti um nýjustu rannsóknir og meðferðir. Því miður eru margir læknar ennþá að horfa á 20 ára gömul viðmið og ekki nægilega vel að sér í greiningu og þeim meðferðum sem eru viðhafðar í dag. Margir læknar vilja t.d. meina að ef kona er enn með blæðingar þá sé hún ekki byrjuð á breytingaskeiðinu...eða ef kona fær ekki hitaköst þurfi hún ekki hormóna...eða ef kona er undir fimmtugu geti hún ekki verið byrjuð...eða að konur eigi bara að taka hormón í eins stuttan tíma og eins liltum skömmtum og mögulegt er... ÞETTA ER ALLT RANGT! Ef læknirinn þinn er með þessi viðmið myndi ég finna nýjan!
⛔️ Það er talið ákjósanlegast að fá estrógen í gegnum húð í geli eða plástri (í sumum löndum er líka til sprey), með því móti eru líkur á blóðtappa engar. En hormón sem eru tekin um munn (hormónameðferð og getnaðarvarnarpillur) geta haft í för með sér örlítið auknar líkur á blóðtappa. Aðal ástæðan fyrir því er talin vera sú að þegar hormónin fara í gegnum meltinguna þarf lifrin að vinna úr þeim en lifrin sér líka um blóðstorknun í líkamanum og of mikið af estrógeni í lifur (sem getur gerst þegar hormón eru tekin um munn) getur leitt af sér “klístrað blóð” sem getur myndað blóðtappa. Þannig að estrógen í gegnum húð er öruggt fyrir konur sem eru með sögu um blóðtappa, HÉR er ýtarefni um hormón og blóðtappa frá The Newson Health Menopause Society
⛔️ Konur MEÐ LEG þurfa í flest öllum tilfellum að fá prógesterón með estrógeninu (hvort sem estrógen er gefið í hegnum húð eða töfluformi). Það virðist vera misskilningur í gangi meðal einstaka lækna að ef konur nota estrógen hormón í gegnum húð (gel eða plástur) að þá þurfi ekki að nota prógesterón með. En það er ekki rétt, kona sem er á estrógeni í gegnum húð þarf alveg jafn mikið á prógesteróni að halda eins og ef hún væri á samsettri hormónameðferð.
Estrógenið byggir upp slímhúð legsins og við þurfum prógesterón til þess að vinna á móti því (bara eins og gerist í eðlilegum tíðahring) annars getur estrógenið valdið ofvexti í frumum legsins, ástand sem getur leitt til krabbameins. ⛔️ Besta prógesterónið til inntöku kallast micronised prógesterón og hefur sýnt minnstar aukaverkanir og slær yfirleitt vel á einkenni.
Í samsettum töflumeðferðum er oftast notast við “gervi” (synthetic) efni í staðin fyrir “alvöru” prógesterón sem heitir ýmsum öðrum nöfnum eins og Noretísterón, Levonorgestrel, Medroxýprógesterón, Tíbólón svo eitthvað sé nefnt. Oft þegar konur þola illa hormónameðferðir er orsakavaldurinn þessi gervi efni, þau geta stundum valdið óþægindum og aukaverkunum s.s. hækkuðum blóðþrýsingi, hárlosi, skapvandamálum og andlegri vanlíðan, þunglyndi og kvíða, húðvandamálum, þyngdaraukningu og sum þeirra hafa verið tengd við auknar líkur á brjóstakrabbamein ofl. HÉR finnurðu grein með mikilvægum upplýsingum um mismunandi gerðir af prógesteróni
Hormónalykkjan er ágætis prógesteróngjafi en er eingöngu staðbundið og hentar sumum konum vel til þess að halda legslímunni í skefjum.
⛔️ Konur þurfa oft líka að nota testósterón, þó að oftast sé talað um að testósterón sé karlahormónið, þá er staðreyndin sú að konur framleiða 3x meira magn af því en estrógeni. Þegar það minnkar getum við fundið fyrir alskonar eikennum, sjá nánar í þessum pósti
Comments