top of page
Search

3 stig breytingaskeiðsins

Það virðist stundum vefjast fyrir konum (og læknum reyndar líka) hvenær þetta blessaða skeið byrjar og endar…og hvað gerist hvenær.



1. stigið - Breytingaskeiðið sjálft er tíminn þegar breytingar á hormónunum byrja, sumar konur byrja að finna einkenni fyrir fertugt en gera sér kannski ekki grein fyrir að það eru lækkandi hormón sem eru að valda ýmsum óþægindum. Þar að auki eru mörg einkennin ansi lúmsk og skrýtin, eitthvað sem við tengjum ekki við breytingaskeiðið. Held að ef við horfum til baka eftir að við vitum hversu fjölþætt einkennin geta verið þá eru örugglega margar konur sem tengja við einkennin mun fyrr en þeim grunaði í fyrstu. Þetta tímabil getur verið langt og erfitt og því mikilvægt að leita sér hjálpar um leið og þú gerir þér grein fyrir að þú sért líklega komin á þennan stað.


⛔️ Eftir 45 ára (jafnvel strax uppúr fertugu) er erfitt að greina breytingaskeiðið með blóðprufu og á að fara frekar eftir klínískum einkennum til að greina það.


⛔️ Þarna eru konur enn á blæðingum þó þær geti verið farnar að breytast - minnka/aukast, lengra/styttra á milli, en oft eru breytingarnar litlar þannig að við tökum ekki endilega eftir þeim.


⛔️ Þessu tímabili fylgja oft erfið einkenni sem gera vart við sig um allan líkama, allt frá þessum týpísku hitakófum yfir í furðuleg einkenni s.s kvíða, svefntruflanir, kláða undir húð, eyrnasuð, vöðva -og liðverki, höfuðverki, tíð þvaglát, vandamál í gómum, svima, bjúg ofl ofl - einkennin eru yfir 34 talsins! Hér er ýtarlegur einkennalisti sem getur verið gott að fara reglulega yfir.



2. stigið - Tíðalok (eða tíðahvörf), þetta er bara einn dagur, dagurinn þar sem 12 mánuðir eru liðnir frá síðustu blæðingum, ekki 8, ekki 10…heldur 12 samfelldir mánuðir með engum blæðingum. Og þar með ertu komin yfir á 3ja stigið...


⚠️ Þetta stig getur hafist fyrirvaralaust vegna veikinda t.d. vegna lyfjameðferðar, eggjastokkanáms, eggjastokkabilunar (POI) ofl.



3️. stigið - Eftir tíðalok, þetta tímabil telur spannar öll árin sem á eftir koma. Oft nær þetta stig yfir þriðjung ævi okkar!


⛔️ Þessu stigi geta fylgt önnur vandamál en á fyrsta stiginu - einkenni frá þvagrásarkerfinu og leggöngum s.s þvagleki við áreynslu (jafnvel bara að ganga), tíð þvaglát, blöðrubólgueinkenni með og án sýkinga, rýrnun legganga, þurrkur, kláði ofl. (þessi einkenni geta verið byrjuð strax á fyrsta stiginu).

⚠️ Um 70% kvenna upplifa þessi einkenni - Það er mikilvægt að vita að það er auðvelt að bæta líðan og jafnvel losna við þau með staðbundinni hormónagjöf!


⛔️ Yfirleitt förum við inní þægilegri tíma í kjölfarið á þessu stigi en þó geta sum einkenni eins og hita/svitakóf, svefntruflanir og andleg vanlíðan haldið áfram eða jafnvel byrjað aftur seinna á þessu tímabili.


⛔️ Þessu stigi getur líka fylgt aukin hætta á alvarlegri sjúkdómum s.s beinþynningu, hjartasjúkdómum, sykursýki og jafnvel heilabilun á borð við Alzheimers!

Breytingaskeiðið getur reynst mörgum konum erfitt, einkenni geta verið lífshamlandi, en í flestum tilfellum er hægt að bæta líðan með breyttum venjum, bættum lífsstíl og hormónauppbótarmeðfer sem hentar flestum konum. Hér geturður lesið um fyrstu skrefin í greiningu og meðferð Aðal atriðið er...ekki gera ekki neitt, þú þarft ekki að fara þetta á hnefanum, fáðu aðstoð við að komast í gegnum þetta tímabil ef þér líður ekki eins og þér á að líða ❤️

870 views0 comments
bottom of page