top of page
Search

Krabbamein í píkunni?

Ha...er það til? Ójá, það er víst enn eitt atriðið sem við konur þurfum að hafa í huga!

Við getum líka fengið krabbamein í leggöng og leg...maður heyrir alltaf bara talað um leghálskrabbamein!

Fyrir nokkru síðan póstaði ég videoi á instagram frá lækni sem var að tala um krabbamein í ytri kynfærum, ég hafði bara aldrei heyrt um að þetta væri til. En í kjölfarið fékk ég póst frá nokkrum hjúkrunarfræðingum sem sögðust þekkja þetta úr sínu starfi á bæði krabbameinsdeildum og heimaþjónustu.

En ég fékk líka póst frá hugrakkri konu sem þekkir þetta krabbamein af eigin raun og var tilbúin að segja sína sögu til að fræða okkur hinar og vekja athygli á þessu mjög svo lítt umtalað krabbameini!


Þessum pistli má deila út um allt, mér finnst að allar konur þurfi að vera meðvitaðar um þetta!


Gefum henni orðið...

 

Frumubreytingar á kynfærum, algengara en þú heldur!


Já það er til og reyndar frekar algengt. Það er eiginlega óskiljanlegt að ekki sé talað um þetta opinberlega, en auðvitað vill enginn ræða þetta þar sem það er óþægilegt og auðvitað mjög persónulegt.

En ég ætla nú samt að segja ykkur mína sögu.


Þegar ég var ung ca 17-18 ára smitaðist ég af kynsjúkdómi sem er kallaður vörtur á íslensku (HPV), ég fór ekki strax og ég fann fyrir óþægindum til læknis, þannig að þetta fékk að dreifa sér nokkuð vel áður en það var tekið.

Það skal tekið fram að ég vissi auðvitað ekki hvað var að og hafði ekki fengið neina fræðslu á þessum tíma um neitt sem við kom óþægindum á kynfærum.

Ef ég hefði farið fyrr til læknis, þá hefði þetta hugsanlega orðið allt öðruvísi hjá mér, svona seinna meir.


En .. ég sem sagt fer til læknis þarna á sínum tíma og það þarf að taka þetta með aðgerð, svæfing og allt brennt í burtu, ég þarf líklega ekki að segja ykkur hversu mikill sársaukinn var þegar ég vaknaði, flakandi sár að neðan!

Þetta greri og ég hugsaði ekki meira um þetta næstu árin, enda kom ekki orð um neitt frá blessuðum lækninum, um það að ég væri í meiri hættu en aðrir á að fá síðar meir frumubreytingar.


Árin líða og ég greinist með frumubreytingar í leghálsi 27 ára, er send í keiluskurð og er í eftirliti reglulega varðandi það, það hefur ekki komið upp aftur.

Á þessum 10-11 árum sem liða þarna á milli er ENGINN sem segir mér að það þurfi að fylgjast með (frumu)breytingum á skapabörmum vegna HPV smitsins sem ég fékk þarna 17-18 ára!

Ok, árin líða og allt gengur sinn vanagang þar til ég er 49 ára, þá er ég með einhver óþægindi á öðrum innri barminum og fer til kvensjúkdómalæknis míns, hún heldur fyrst að þetta séu vörtur og sendir mig heim með einhvern áburð til að drepa þetta niður, það virkar ekkert og mig svíður mikið í þetta. Hún tekur á endanum sýni og þá kemur í ljós að þetta eru frumubreytingar!

Ég er send til annars læknis sem er líka skurðlæknir og hann vill taka barminn alveg af til að vera viss um að ná öllum frumubreytingunum!

Þarna hafði ég bara aldrei heyrt að það væri yfirleitt gert og leið auðvitað ömurlega yfir því að þetta væri staðan, en það var ekkert annað í stöðunni en að gera eins og læknirinn vildi.

Það skal tekið fram að þarna segi ég auðvitað í vinnunni að ég sé með frumubreytingar sem þarf að taka og allir gera ráð fyrir að það sé í leghálsi, og ekki ætlaði ég að fara að leiðrétta það neitt.

Annar innri barmurinn er tekinn og ég jafna mig, en er alltaf að hugsa um hvað við (konur) vitum lítið og fáum litlar upplýsingar um hverju við þurfum að fylgjast með!


Við vitum að við þurfum að fylgjast með brjóstunum, leita eftir hnútum og það allt, þökk sé Leitarstöðinni (sem er ekki til lengur held ég), en á Leitarstöðinni gat ég ekki látið skoða hvort væru breytingar á kynfærum, neiii þeir skoða bara “fyrir innan”, ég spurði sko um það.

54 ára finn ég fyrir óþægindum frá kynfærum, held reyndar þá að ég sé með stiflaðan kirtil (sem gerist líka oft, sérstaklega hjá konum yfir 45), fer á kvennadeildina á LSH og þar sjá þær strax að það er komin frumubreyting í örið þar sem barmurinn var tekinn.

Ég er spurð hvenær ég hafi síðast farið í eftirlit eftir skurðinn sem var gerður fimm árum fyrr, og ég bara haaa?? Eftirlit? Ég hef ekki verið í neinu eftirliti!

Það kemur fát á læknana, já þeir voru nokkrir þarna, og þær (konulæknarnir) segja mér að ég hefði átt að vera í eftirlit þar sem þetta kemur oft upp aftur!

Ég átti semsagt að vera í eftirliti eftir að barmurinn var tekinn, en enginn minntist á neitt við mig, bara send heim.


Aftur á móti þegar ég fór í keiluskurðinn (sem er upp í leghálsi, þeas inn fyrir kynfæri, það virðist vera að það gildi önnur lögmál þar) þá var ég í eftirliti á 6 mánaða fresti í nokkur ár, alltaf kölluð inn af Leitarstöðinni!


Jæja, ég er aftur komin í aðgerð á kynfærum, nú þarf að taka töluvert mikið af frumubreytingum sem höfðu fengið að grassera, þar sem ekkert eftirlit var, í langan tíma.

Þið getið bara ímyndað ykkur hvernig er þegar strekkist á þessu svæði, það er takmarkað hægt að taka þar sem þetta er mjög lítið svæði.

Það er búið að taka sinn tíma að gróa, það rifnaði reyndar upp viku eftir skurð, þar sem ég teygði mig aðeins niður á við til að taka eitthvað upp úr gólfinu, já stelpur það teygist á þessu svæði þegar við beygjum okkur fram, ég komst heldur betur að því.


Í dag hef ég grafið upp allt sem ég finn um HPV og fylgist vel með mínum kynfærum.

Það er mjög mikilvægt að við skoðum okkur reglulega þar, alveg eins og brjóstin, og að við látum lækni skoða okkur reglulega, ekki bara þegar eitthvað er að!

Sem betur fer eru ungar stúlkur bólusettar fyrir nokkrum týpum af HPV í dag, sem kemur í veg fyrir einhver smit, en alls ekki öll, þannig að okkar skoðanir skipta máli, miklu máli.

Ef þú sérð breytingu á lit, dökkt, ljóst eða upphleypt á kynfærum, láttu þá alltaf skoða af lækni. Alltaf!



 

Vá ég hafði ekki hugmynd um að þetta væri til!!

En þú? Hefur þú heyrt um krabbamein í ytri kynfærum? Kærar þakkir til þessarar hugrökku konu fyrir að deila með okkur sinni sögu til að fræða okkur og vekja athygli á þessu ❤️ Hér er linkur á videoið sem ég póstaði upphaflega sem startaði þessari umræðu - Smelltu hér

(opnast á instagram) Hér er fræðsluefni frá krabbameinsfélaginu - Smelltu hér

533 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page