Þetta er hugsun sem er búin að heimsækja mig svo oft undanfarna mánuði. Þar á undan var það "Hvað erum við eiginlega að pæla" og "Af hverju erum við að þessu".
Það líður bara ekki sá dagur að ég hugsi ekki eitthvað á þessa leið, reyndar gerist það helst á kvöldin þegar ég er að leggja höfuðið á koddann, þá fer "þeytivindan" í gang með hugsunum á borð við þessar, stundum í bland við hugarsýn á allt sem gæti farið úrskeiðis og allt sem ég mun missa... Loksins komin inní samfélagið, á yndislega vini hér, tala tungumálið, æðisleg borg, 3 af 4 börnum búa í nágrenninu, get skroppið í yogatíma og skilið hvað er verið að segja, auðvelt að halda námskeið og fyrirlestra...og og og...
En sem betur fer koma líka jákvæðar sýnir í bland við spenning og tilhlökkun, og nú þegar er alveg að koma að þessu get ég bara ekki beðið eftir að fá að takast á við þetta!
En sama hvaða hugsanir eru í "þeytivindunni", hausinn á mér er búinn að vera í einum risa hrærigraut í heilt ár!!
Ef við spólum aðeins til baka...reyndar verð ég að spóla svona 5 ár til baka til þess að sjá þetta í réttu ljósi.

Fyrir 5 árum var ég bara í sakleysi mínu að vinna á útiskrifstofunni minni (heitapottinum) í Hafnarfirðinum, taka símtöl, stilla upp haustnámskeiðum og gera mig klára í að hjálpa fólki að taka til í lífsstílinum eftir sumar-mareninguna (heimild: Facebook).
Yngsta dóttirin var þá 13 ára, tvíburarnir 19 ára og elsta 21 árs og ný flutt að heiman, 3 börn eftir heima og nóg að gera á heimilinu!
Ef einhver hefði sagt mér á þessum tímapunkti hvernig næstu ár myndu verða hefði ég mjög líklega bara hlegið og ekki trúað viðkomandi.

En ári eftir þessa minningu á FB kemur einmitt mynd af tómu húsi, öll búslóðin komin í gám og búið að kaupa one way ticket til Leeds fyrir okkur hjónin og yngsta barnið.

Önnur tvíburadóttirin flutti til UK rétt á undan okkur og hin kom svo ári síðar meðan þessi elsta ákvað að vera eftir á Íslandi, enda komin á fullt í sitt líf.
Og nú sit ég hér aftur innan um kassa og drasl að reyna að klára að pakka niður húsinu í Leeds...aftur búið að kaupa one way ticket, núna til Þýskalands!!
Í þetta sinn er þetta ennþá skrýtnara, nú erum við hjónin bara að flytja tvö... Ég er aftur að skilja börnin mín eftir!!
Þegar ég flutti frá Íslandi fannst mér ég vera að skilja börnin mín eftir, dæturunum tveim sem urðu eftir stóð alltaf til boða að koma með en þær völdu að búa áfram á Íslandi, þá 20 og 22 ára, en mér fannst ég samt vera að sklija þær eftir. Mömmuhjartað og hausinn getur stundum verið í aljgöru bulli.
Ég er alin upp í fjölskyldu sem er mjög náin, ekki bara við systkinin og ma og pa, heldur líka bara stórfjölskyldan, systkini foreldra, börn þeirra...allir alltaf saman í einum graut og ég elska það!!
Og ég hef aldrei séð fyrir mér að við myndum hafa það einhvern veginn öðruvísi...bjuggum öll í sama bænum, allir að kíkja í kaffi til hvort annars og allir að borða saman, grilla uppí bústað og bara allir saman alltaf. Sumum finnst þetta eflaust skrýtið og ég veit að sumir makar sem hafa komið inní fjölskylduna hafa þurft smá aðlögun til að ná að höndla alla þessu ofur-samveru.
Þess vegna hafa hugsanirnar verið á þessa leið sem ég var að lýsa hér í upphafi ásamt...
"Hvað erum við búin að gera?"
"Við erum búin að brjóta upp fjölskylduna!"
"Hvernig verður þetta þegar við förum að eignast barnabörn?!"
"Munu þau þekkja ömmu og afa?"
"Af hverju vorum við að flytja frá Íslandi?!"
Og ekki nóg með það...
Ef þú sem ert að lesa þetta hefur verið gift eða sambúð með makanum þínum í meira en 15 ár þá skilurðu örugglega það sem kemur hér á eftir.
VIÐ ERUM AÐ FARA AÐ VERA ALEIN...BARA VIÐ TVÖ!!
Ég veit að þeir sem eru akkúrat á þeim tímapunkti að vera enn á kafi í uppeldi og tala nú ekki um vökunóttum og bleyjuskiptum skilja ekki af hverju mér finnst það svona svakalegt. Draumsýn allra foreldra sem eru á kafi í barnauppeldi!!
Ég hugsaði það líka þá!
Ég veit ekki hversu oft við maðurinn minn sögðum við hvort annað þegar við lögðumst örmanga á koddann af uppeldisálagi...
"One day...þá verðum það bara ég og þú elskan".
Ekki nóg með að við eigum 4 dætur, heldur hafa tengdasynirnir yfirleitt búið hjá okkur líka, þannig að það hefur ekki vantað líf og fjör í húsið...vægast sagt!
En nú er bara allt í einu komið að því að við verðum ein!
Og það er bara pínu scary, sérstaklega þegar maður verður í landi þar sem maður þekkir engann og talar ekki einu sinni tungumálið!
Þetta hefði orðið allt öðruvísi ef við hefðum bara haldið okkar striki á Íslandi...allir vinirnir þar, börnin ekki langt frá og þá barnabörnin (þegar þau koma), foreldrar og systkini og bara allt annríkið og rútínan sem maður er búinn að vera í svo árum skiptir. Eina breytingin hefði verið að það fækkaði matardiskunum sem maður leggði á borð..einum af öðrum. Nema þegar allir kæmu í sunnudagssteik til mömmu og pabba...hversu sætt og rómó.
Nei það verður ekki alveg svona hjá okkur....
Við vorum nálægt því hérna í Leeds, hefðum öll búið nokkuð nálægt hvort öðru, fyrir utan elstu dótturina, sem hefur reyndar verið mjög dugleg að heimsækja okkur.
En nei nei...höldum áfram að hrista upp í lífinu!
(sagt með pínu kaldhæðnistón og pirringi stundum).
Nú er ég viss um að margir hugsa...af hverju sleppið þið þessu bara ekki eða flytjið bara aftur heim til Íslands?!
Trúðu mér ég hef spurt mig að þessu líka...oftar en ég get talið.
Auðvitað væri það bara auðveldast!
En það sem hefur hjálpað mér að halda hausnum í lagi (nema þegar þeytivindan fer í gang) er að horfa á þetta sem ævintýri og tækifæri.
Ég þekki fólk sem myndi gefa mikið fyrir að fá tækifæri til að prufa eitthvað nýtt og búa erlendis, ég þekki fólk sem er að glíma við erfið veikindi og hefur þar af leiðandi ekki séns á að láta svona ævintýri rætast, og ég þekki líka fólk sem langar og langar en vantar kjark til að stíga skrefið.
Við vorum í þeim hópi, okkur langaði, vorum búin að tala um að búa erlendis frá því að við kynntumst, en svo var aldrei rétti tíminn...sko útaf börnunum. En svo fluttum við með 14 ára ungling...hversu góð tímasetning er það eiginlega? hehehe
Það er aldrei rétti tíminn, tíminn er bara núna og stundum þarf maður bara að þora að stökkva því hver veit hvað við höfum mikinn tíma.
Og svo er það hvernig tíminn er nýttur... Munurinn t.d. á að skreppa í mat til mömmu af og til í 2-3 tíma eða fá mömmu til mín í viku, 24/7 er ólýsanlegur. Já ég sé hana sjaldnar en gæðastundirnar eru miklu meiri þegar hún kemur í heimsókn. Og það sama á við aðra fjölskyldumeðlimi, mér finnst ég þekkja fólkið mitt miklu betur núna heldur en áður en við fluttum út.
Áður en við tókum ákvörðun um að flytja til Þýskalands héldum við fjölskyldufund með dætrum okkar, vildum vita að þær væru sáttar með þetta. Þeim fannst þetta öllum frábært og sögðu að þetta kenndi þeim bara að maður getur alltaf elt draumana sína, alveg sama hversu gamall maður verður ❤️ (jebb við erum víst gömul).
Við vorum að sjálfsögðu búin að ræða allt við yngstu dóttirina áður en nokkuð var aðhafst, þar sem þetta myndi kannski breyta mestu fyrir hana. Hún er 18 ára og býr ennþá heima, var í vor að klára stúdentspróf, og er að hefja nám við háskólann hér í Leeds, sem er einn af þeim betri í UK. Eitthvað sem hana er búið að hlakka mikið til, eiginlega síðan við fluttum, búið að hlakka til að komast í umhverfi þar sem allir eru nýir, engir vinahópar búnir að myndast og hún er með frá upphafi. Þó að hún sé búin að eignast mjög góða vini hér þá er alltaf erfitt að komast almennilega inní hópa þar sem fólk er búið að vera vinir í mörg ár, frá því þau voru börn.
Upphaflega planið var að maðurinn minn myndi vinna í Þýskalandi og ég myndi búa áfram hér allavega fyrsta árið, meðan hún væri að komast af stað í háskólanum. Við myndum svo bara flakka á milli hvors annars...n.k fjarbúð.
En svo kom bomban fyrir mömmuhjartað!
Dóttirin vildi fara í heimavist! Það tíðkast hér að krakkar búi fyrsta árið á heimavist, meira að segja þó að þeir búir í sömu borg og skólinn. Og sumir sækja um skóla í öðrum borgum til að "þurfa" að búa á heimavist.
Mér fannst þetta svakalegt! Aðalega af því að það þýddi að það væri komið að því að síðasti unginn yfirgæfi hreiðrið. En hún kom með mjög góð rök... "Maður eignast miklu betri vini ef maður fer ekki bara beint heim eftir skóla og svo gerir maður þetta bara einu sinni á lífsleiðinni"
Ég gat ekki verið annað en sammála.
Jebb...þannig að ég var að flytja til Þýskalands takk fyrir.
Þetta var fyrir ári síðan...akkúrat í ágúst. Síðan þá er hausinn á mér búinn að vera á þeytivinduprógrammi meira og minna. Kvíði, óvissa og ótti í bland við eftirsjá og söknuð. Ofan á þetta er síðan búið að bætast við bið og meiri bið, endlaus skipulagning og að ógleymdu því allra leiðinlegast...pakka niður húsinu.
Maðurinn minn flutti yfir til Þýskalands í febrúar á þessu ári, hann þurfti að byrja í nýju vinnunni, þannig að ég er búin að vera grasekkja síðan þá. Ég get alveg sagt ykkur að ég er gríðarlega fegin að dóttirin ákvað að fara í heimavistarskóla...því ég hefði ekki nennt þessu í ár í viðbót!! Þetta er mögulega það leiðinlegasta sem ég hef gert.
Við, eins og svo mörg önnur hjón sem eru búin að vera saman í yfir 20 ár, vorum búin að fjarlægjast í gegnum árin og svoldið bara föst í okkar rútínum. Bæði önnum kafin í vinnu og svo að sjálfsögðu að reka fjölskyldu-batteríið okkar, ásamt því að sinna félagslífi og Íslenskri "brjálað að gera" rútínu.
Síðan flytjum við til Leeds og þá allt í einu höfðum við engan annan en okkur tvö. Þekktum engann og maður stekkur ekkert inní samfélagið hérna, hér er ekkert vinnufélagslíf, vinnufélagar hittast bara í vinnunni, engar árshátíðir eða vinnustaðapartý, fyrir utan einn jólahitting eftir vinnu á einhverjum pöbbnum og þá er maki aldrei boðinn með. Þannig að við "þurftum" bara að gera svo vel að fara að kynnast hvort öðru uppá nýtt. Sem er að sjálfsögðu einstakt tækifæri og ekkert víst að við hefðum gert það ef við hefðum ekki flutt...þá hefðum við líklega bara haldið áfram að vera bussy við að halda öllum öðrum boltum á lofti en okkar sameiginlega bolta.
Þannig að ég og besti vinur minn og lífsförunautur erum að halda á vit ævintýranna, bara tvö.
Við höfum ekki verið saman bara tvö með engann að hugsa um nema hvort annað í 26 ár, síðan við vorum 20 og 23 ára. Við vorum bara búin að vera saman í rúm 2 ár þegar fyrsta barnið mætti á svæðið...og 2 árum eftir það mættu 2 börn í viðbót og lífið fór á fullt og hefur verið á öðru hundraðinu síðan þá með alskonar erfiðum, krefjandi, gefandi og dásmlegum áskorunum.
Það er svo auðvelt að láta kvíðann og óttann valta yfir sig, og í raun ræna sig gleðinni við þetta nýja ferðalag, en ég er búin að ákveða að sjá spennandi hliðina á þessum breytingum. Bæði á því að flytja í annað land og því að við verðum bara tvö ein.
Okkur var svoldið hent útí fyrri hálfleikinn með látum...ég meina 22 ára var ég með 3 börn undir 2ja ára og 28 ára var ég gift, með 4 börn að byggja hús.
Mér finnst alveg svakalega spennandi tilhugsun um að vera meira við stjórnina í seinni hálfleiknum, ekki misskilja mig, ég myndi engu vilja breyta varðandi fyrr hálfleikinn, en nú er maður víst eldri og vitrari, þekkir sjálfan sig betur, veit hvað maður vill og...hefur enga afsökun þar sem maður hefur ekki neinn um að hugsa nema sjálfan sig.
Þannig að nú er bara að skála fyrir næsta kafla í lífsbókinni, búa sig undir nýjar áskoranir, ný ævintýri og muna að njóta þessarar einstöku ferðar.

Best að fara að halda áfram að pakka, hér er bókstaflega allt í rúst...en eftir nákvæmlega 2 vikur verðum við að loka flutningabílnum og keyra af stað niður til Þýskalands.
Auf Wiedersehen!
Halldóra