
Ég hlustaði á mjög áhugaverðan TED fyrirlestur um daginn (ef þú veist ekki hvað TED fyrirlestrar eru þá er hér linkur www.ted.com). Þessi fyrirlestur fjallaði um hver ákveður hvað þú hugsar...mjög áhugaverð pæling, eitthvað sem ég er búin að gera að umfjöllunarefni mínu í mörg ár.
Í þessum fyrirlestri var sagt frá rannsókn sem var gerð meðal háskólanema á því hvernig það sem þau segja/hugsa (sjálftalið) við sjálfan sig hafði áhrif á hegðun þeirra.
Þeim var skipt upp í 2 hópa, báðir hópar fengu fyrirmæli um hvað þau ættu að segja við sjálf sig þegar þau væru nálægt nammi. Annar hópurinn átti að segja "Ég ætti ekki að borða nammi", meðan hinn hópurinn átti að segja "Ég borða ekki nammi".
Síðan var komið fyrir nammi stöðvum víðsvegar um svæðið ásamt fólki sem átti að fylgjast með hversu vel nemunum tækist að standast nammi freistinguna.
Hvernig heldurðu að þeim hafi tekist til?
39% þeirra sem sögðu "Ég ætti ekki að borða nammi" náðu að standast nammi freystinguna.
64% þeirra sem sögðu "Ég borða ekki nammi" tókst að standast nammi freystinguna.
Mjög áhugavert ekki satt!
Málið er að undirmeðvitundin er alltaf að hlusta og bíða eftir skipunum frá okkur. Og undirmeðvitundin er bara eins og svampur...tekur við öllu sem við segjum. Eina vandamálið er að undirmeðvitundin tekur öllu bókstaflega, skilur ekki kaldhæðni, sér ekki möguleika eða eitthvað sem er óljóst. Hún skilur bara skipanir og giskar í eyðurnar.
Þannig að þeir nemar sem sögðu "ætti ekki" var auðvelt fyrir undirmeðvitundina að skilja það t.d. sem "Ég ætti ekki að borða nammi einhvern tíman í framtíðinni, en get alveg gert það í dag".
En þeir nemar sem sögði "Ég borða ekki nammi", þeir voru að gefa undirmeðvitund sinni beina skipun um að þeir borði ekki nammi.
Undirmeðvitundin er með okkur í liði, hún vill allt fyrir okkur gera, við þurfum bara að læra að tala við hana þannig að hún skilji hvað við viljum og geti hjálpað okkur að láta það verða að veruleika!
Undirmeðvitundin stýrir u.þ.b 95% af því sem við gerum!!
Þannig að það er svo mikilvægt að vanda valið þegar við erum að tala við okkur eða hugsa.
Og ef þú heldur að þú talir ekki við sjálfa þig...þá hefurðu bara ekki verið að taka eftir.
Við gerum þetta öll!
Við tökum bara ekki eftir því...því þetta er oftast í formi hugsana, ok stundum segir maður hluti upphátt við sjálfan sig (ég stend mig allavega stundum að því! Lít þá í kringum mig til að tékka hvort einhver er að hlusta og heldur að ég sé eitthvað skrýtin.... en svo man ég að ég bý í Bretlandi og þar er svo mikið af alskonar fólki þannig að ég hverf nú bara í fjöldann þó ég sé að bulla eitthvað við sjálfa mig upphátt á Íslensku hehehe).
En ok hvernig getum við þá tekið stjórnina á þessu sjálftali og farið að segja eitthvað af viti við okkur. Segja eitthvað sem hjálpar okkur að vera manneskjan sem við viljum vera!
Hér eru nokkur ráð:
# Skilgreindu það sem þú segir
Ekki panikka þegar þú hlustar á hvað þú ert að bulla í þér, og fattar að ansi stór hluti af því sem þú segir við þig er neikvætt og jafnvel bara nokkuð nastý og ljótt stundum! Skiptu því frekar uppí Gagnlegt og Ógagnlegt.
Reyndu að dæma þig ekki, leggðu þig frekar fram um að reyna að skilja hvaðan þessi hugsun kemur. Margar neikvæðar hugsanir koma út af ótta, sem getur verið út af einverju sem "kom fyrir þig" einu sinni...
Undirmeðvitundin (sem er alltaf að reyna að passa uppá okkur) er búin að reyna að safna Ógagnlegum sönnunargögnum um að bullið þitt sé satt. Nú skalt þú gá hvort þú getir ekki safnað Gagnlegum sönnunargögnum til að vega uppá móti.
# Æfðu þig í að tala fallega til þín.
Það getur verið pínu skrýtið og erfitt að byrja að tala fallega til sín ef maður er búinn að rakka sig niður í langan tíma...jafnvel mörg ár eða áratugi.
Fyrst finnst manni það vera bara eins og lygi og verður hálf kjánalegur. En kommon það er enginn að hlusta nema undirmeðvitundin (nema auðvitað ef þú ert eins og ég og gleymir þér stundum og galar sjálftalið yfir alla í búðinni), þannig að láttu bara vaða!
# Ég er...listi.
Þetta er eitthvað sem ég hef notað í mörg ár. Þá skrifa ég niður lista af fullt af fallegum, hvetjandi og gagnlegum lýsingarorðum um sjálfa mig. Það sem er mikilvægt við þennan lista er að segja alltaf Ég er fyrir framan.
Sem dæmi: Ég er frábær, Ég er nóg, Ég er flott, Ég er skemmtileg, Ég er kærleiksrík, Ég er elskuð, Ég er rík, Ég er heilsuhraust, Ég er í flottu formi, Ég er sterk, Ég er jákvæð, Ég er.....
Þú skilur hvað ég meina.
Annað sem ég mæli með er að taka nokkur atriði af þessum lista sem þú vilt setja extra fókus á og skrifa þau niður á lítinn miða... 3-5 atriði sem myndu gagnast þér mest þessa stundina. Hafa svo þennan miða á náttborðinu þínu og gera það að vana að lesa yfir hann á hverjum morgni áður en þú ferð fram úr til að takast á við daginn og á hverju kvöldi áður en þú ferð inní draumalandið.
Settu eins mikla tilfinningu í þessi atriði og þú getur þegar þú segir þau við þig (hvort sem þú velur að segja þau upphátt eða í huganum).
Tilfinningin er gríðarlega mikilvægur partur af þessu, með því ertu að "plata" undirmeðvitundina og láta hana halda að þetta sé satt nú þegar og hún hafi og sé að upplifa þessi atriði.
Nú er bara að hefjast handa og mundu að þú kemst yfir kjánahrollinn ef þú bara heldur áfram og lætur sem þú heyrir ekki í sjálftalinu sem segir þér að þetta sé kjánalegt...setur það bara á Ógagnlegalistann ;-)