top of page
Search

Það er búið að loka svartholinu!


Ég stend og stari á þetta risastóra 0 fyrir framan mig. Það er miklu stærra en ég, örugglega um 3 metrar á hæð og í þrívídd þannig að ég get auðveldlega staðið inní því. Til vinstri sé ég fleiri tölustafi...þetta er árið 2020 sem ég stend fyrir framan!


Ég lít yfir öxlina og stari inní þykkt myrkrið fyrir aftan mig...með sinni þrúgandi þögn, það er dauðaþögn hérna. Ég finn fyrir myrkrinu þrýsta á bakið á mér, og finn kuldann sem fylgir.


Ég lít aftur á Núllið, inní því miðju er einhverskonar þunnur pappi...svona eins og himna. Ég sé daufa birtu koma þar í gegn og heyri óm af gleði og finn hlýju streyma þaðan. Ohh hvað það virðist vera notalegt þarna hinumegin...


Ég lít einu sinni enn til baka inní myrkrið og skrýtnar tilfinningar koma uppí hugann...sem ég skil ekki alveg til fulls ennþá. Ég er hissa...hissa á að ég sé búin að vera í þessu þykka, þrúgandi myrkri, verð pínu döpur við tilhugsunina, en finn líka fyrir dýpri skilningi á sjálfri mér og öllum hinum sem dvelja í þessu Svartholi. Þetta er ekki góður staður að vera á. En það velur enginn að vera þarna, það bara gerist. Og það langar öllum að yfirgefa þennan stað en það er bara svo erfitt að finna leiðina þegar myrkrið er svona þykkt, eina sem maður getur eiginlega gert er að bíða og halda í vonina...hnipra sig saman og bíða.

Upp í hugann koma líka spurningar... "Hvernig lenti ég eiginlega hér? Hvernig gerðist þetta? Af hverju gerðist þetta? Ég sem hef alltaf verið svo jákvæð, séð björtu hliðarnar á öllu og kann "allt" sem viðkemur sjálfshjálp og að vinna í hugarfarinu!"

Ég hef engin svör...þetta gerðist bara. Lífið getur verið snúið stundum.


En nú virðist þetta vera búið. Ég þarf bara að klifra í gegnum þetta Núll.

Mikið er ég fegin að ég hélt þetta út...! Úff hvað þetta er búið að vera erfitt og skrýtið!


Ég lít aftur á Núllið. Bjarta, hlýja og fallega Núllið. "Ég ætla aldrei að líta aftur til baka inní þetta ógeðslega myrkur, þetta endalausa Svarthol!"

Ég finn samt að það kemur upp ótti og smá efi þegar ég segi þetta við sjálfa mig... En ég veit að ég er reynslunni ríkari, ég veit núna að myrkrið varir ekki að eilífu, ef ég lendi aftur í þessu Svartholi þá veit ég núna hvað ég þarf að gera til að þrauka þangað til ég finn leiðina út.


Það má gráta í Svartholinu, og í raun ætti maður að gráta sem mest...það hreinsar aðeins myrkrið úr augunum.

Það er best að gráta í faðminum á einhverjum sem manni þykir vænt um og sem þykir vænt um mann...það hlýjar manni svo mikið og róar hugann...og gefur von um að birtan sé þarna einhverstaðar. Ég hef reynt að fela tárin og gráta ein...það er ekki gott.

Það má faðma sjálfan sig...vorkenna sér...finna til með sér...leyfa sér að vera þarna. Að vera í Svartholinu er ekkert til að skammast sín fyrir, það getur komið fyrir alla að lenda þarna, bara eins og fá stöðumælasekt...bara miklu sársaukafyllra. En með því að sýna sjálfum sér hlýju, umhyggju og skilning í öllu þessu myrkri linar maður aðeins sársaukann meðan maður bíður eftir að birtan komi aftur.


Ég stíg inní Núllið...ómurinn af gleðinni heyrist betur og ég finn hlýjuna á andlitinu mínu. Ég fer nær pappírsþynnunni og sé ég glitta í liti! Bleika...bláa...græna...

Ég hef ekki séð liti svo lengi. Þetta virkilega yljar hjartanu mínu...á sama tíma kemur upp tilfinning sem ég hef heldur ekki fundið fyrir lengi...þarf næstum því að rifja upp hvað hún heitir... Tilhlökkun, eftirvænting, fiðrildi í maganum...eitthvað í þá áttina. Ohh þetta er svo góð tilfinning að ég fer ósjálfrátt að brosa.

Allt í einu rétti ég úr mér...þá fatta ég hvað ég er búin að vera niðurlút, var ekki búin að taka eftir þessu áður. Ég rétti betur úr mér og hugsa "chest up, chin up", eitthvað sem ég var vön að kenna fólki að gera...var alveg búin að gleyma hvað þetta lætur manni líða ósigrandi. Bara að rétta úr sér og halda höfðinu hátt. Merkilegt!


Nú læt ég vaða!!

Ég sting puttunum í gegnum pappírsþynnuna, svo höndunum og ríf gott gat á hana og stíg svo í gegn. Fyrsta sem ég tek eftir er öll birtan, það er allt hvítt...svona mjúk-hvítt og notalegt í bland við alla fallegu litina sem dansa einhvern veginn í kringum mig.

Og hlýjan maður! Hún er svo notaleg, finn hana umlykja mig ofurvarlega. Ekki svona þrúgandi og ýtin eins og myrkrið. Myrkrið var stingandi.

Hér er gleði, ég heyri það. Og fiðrildin í maganum heyra það líka því þau eru farin að flögra um.


Ég horfi í kringum mig og það er sama hvert ég horfi alstaðar er birta, litlir, hlýja og gleði. Ég sé það ekki bara...ég finn það líka inní mér. Finn hvernig þetta smýgur allt inn og ýtir út stingandi sársaukanum frá myrkrinu. Ég verð einhvern veginn léttari...


Ég ákveð að hér ætla ég að vera!!

Um leið og ég tek þá ákvörðun sé ég smá hreyfingu hægra megin við mig...lít þangað og sé þá að pappaþynnan...himnan...í Núllinu, sem ég fór í gegnum, er byrjuð að lokast! Eftir smá stund er eins og ég hafi aldrei farið í gegnum hana, það sér ekki á henni.


Það er búið að loka Svartholinu!!

______________________________________


Það sem þú varst að lesa er eitthvað sem ég upplifði í kringum áramótin, í einni af hugleiðslunum mínum. Ég nota mikið það sem er kallað 'visualisation' eða að sjá fyrir sér og upplifa.

Ég er búin að vera að glíma við mikla depurð undanfarið...líklega ætti ég að segja þunglyndi, ég fór bara aldrei og fékk greiningu, en ég veit að þetta var þunglyndi. Ég er líka búin að vera að takast á við kvíða, djúpann kvíða sem heltekur mig þegar hann mætir á svæðið og maður fær bara engu ráðið. Skrýtið að missa svona tökin og ná ekki að stýra hugsunum og líðan í jákvæða átt...


Ég hef oft í gegnum tíðina farið í gegnum mjög erfiða tíma, upplifað vanlíðan og depurð, eins og við öll, en þetta var eitthvað annað, eitthvað svo miklu dýpra, áþreifanlegra, algjörlega lamandi og yfirtók mig bara.


Ég hef unnið með hugarfarið mitt í yfir 20 ár, stundað alskonar sjálfshjálp, lesið ómælt magn af bókum, horft á ennþá fleiri fyrirlestra, sótt óteljandi námskeið og náð mér í réttindi til að geta gert það að mínu lífsviðurværi að hjálpa öðrum sem eru að glíma við sjálfan sig.


Og samt endaði ég þarna.


Sem betur fer kann ég ýmislegt til að hjálpa mér, ég er í dáleiðslunámi sem er búið að gefa mér mjög mikið og hjálpa mér gríðarlega að takast á við þetta ástand. En líka allt hitt sem ég hef lært og notað í gegnum tíðina, ég blandaði þessu öllu saman og náði að sleppa úr Svartholinu.


Ég ættlaði alltaf til læknis til að fá hjálp, en þar sem ég er nýflutt til Þýskalands er ég ekki ennþá búin að leita að lækni sem talar ensku...og ég tala ekki Þýsku, ekki ennþá þá lét ég aldrei verða að því. Og þegar maður er kominn í Svartholið verður allt einhvern veginn svo erfitt og óyfirstíganlegt. Maður er svo lamaður. Eins og maður þurfi að troðast í gegnum þykka leðju til að gera nokkurn skapaðan hlut.


Ég er mikið búin að velta fyrir mér hvað gerðist, hvernig ég endaði þarna...


Árið 2019 var mér einstaklega erfitt...en líklega er hægt að horfa lengra aftur í tímann, Svartholið laumast svo að manni að maður tekur ekki eftir því fyrr en maður er allt í einu fastur í þrúgandi þögn og þykku myrkri.

Síðasta ár var ár breytinganna hjá okkur fjölskyldunni, allt mjög jákvæðar og góðar breytingar, allir á góðum stað í lífinu, allt að ganga vel...eigum meira að segja von á fyrsta barnabarninu eftir tæpa 2 mánuði. Lífið gæti eiginlega ekki verið á betri stað hjá okkur öllum.


En í lok sumars fluttum við maðurinn minn bara tvö til Þýskalands...og skildum "litla 18 ára barnið" eftir í Bretlandi. Maðurinn minn fékk atvinnutilboð sem var ekki hægt að hafna, yngsta dóttir okkar var á leiðinni í háskóla og hennar heitasti draumur var að búa á heimavist, eins og tíðkast í UK, þar fara krakkar yfirleitt í háskóla fjarri heimabyggð, búa á heimavist fyrsta árið og svo leigja vinir saman næstu ár á eftir. Fyrst ættlaði ég bara að búa áfram í Leeds og hún myndi bara búa heima, en hún kom með svo góð rök fyrir því að flytja inná heimavist að það var ekki hægt að segja nei. (N.B ég fór á heimavist þegar ég var 15 ára og eftir það bjó ég voðalega lítið heima, var svo farin að búa 18 ára).


Þannig að við hjónin fórum eiginlega að heiman.

Nú erum við stödd í ókunnu landi, þekkjum engann, tölum ekki tungumálið, eigum ekkert samfélag og höfum þar af leiðandi engar skildur, þurfum ekki að hugsa um neinn nema sjálf okkur.

Ég get sagt þér að fyrir ekki svo mörgum árum var akkúrat þetta draumsýnin okkar...veit ekki hversu oft við horfðumst í augu og sögðum við hvort annað..."one day baby, þá verðum við bara tvö, höfum tíma fyrir bara okkur!"

Við eigum sem sagt 4 dætur, við eignuðumst elstu dóttur okkar þegar ég var 20 og hann 23, næstum akkúrat 2 árum seinna (vantaði viku uppá) eignuðumst við tvíbura og 6 árum eftir það eignuðumst við yngstu dóttur okkar. Þannig að ég var 28 ára, gift, nýbúin að byggja hús og með 4 ung börn. Og í dag finnst mér 28 ára gamalt fólk eiginlega bara vera börn! Þannig að við fórum á fullt í lífið og það hefur verið á öðru hundraðinu alla tíð síðan. Heilmikil dagskrá, ekki bara tengt heimili heldur líka vinnu og samfélaginu. Síðustu ca. 9 árin (alveg þangað til við fluttum) hafa líka yfirleitt búið hjá okkur 1-2 tengdasynir. Og ef þú hefur hitt okkur veistu að við erum ekkert lágværasta eða rólegasta fjöldskyldan sem fyrirfinnst...hehehe


En nú er allt dottið í dúnalogn... Það bergmálar í húsinu... Við erum bara tvö...

Óskin okkar frá því "back in the days" hefur ræst.


Ekkert af þessu er slæmt...bara erfitt og skrýtið þegar það gerist.


Það er gott að gera sér grein fyrir því að allar breytingar kalla á óöryggi, meðan maður er að fatta í hvaða átt maður er að fara...þetta er eins og að vera staddur á miðjum gatnamótum, stundum er maður bara á litlum kósy sveita gatnamótum og veltir því ekki mikið fyrir sér í hvaða átt maður er að fara. En stundum er maður bara staddur á miðjum gatnamótum í stórborg þar sem allt er á fleygiferð, endalausir möguleikar, allir vegir ókunnugir og svoldið scary og maður verður að taka ákvörðun hvert maður ætlar að fara, annars verður maður bara keyrður niður. En maður er samt bara frosinn og getur sig hvergi hreyft!


Og það er sama hvaða nafn breytingin ber...skipta um vinnu, maka, flytja, fara í skóla...


En með öllum breytingum kemur eitthvað nýtt og spennandi. Ef maður ákveður að setja fóksuinn á það, og stundum þarf maður að leita til að finna taktinn aftur.


Ég hef alltaf litið á fjölskylduna sem það allra dýrmætasta sem ég á, við erum mjög náin fjölskylda og ég er mikil mamma, vil vera til staðar, vernda og leiða börnin mín í gegnum lífið (til að vera alveg hreinskilin, þá vil ég helst pakka þeim inní bómul). Það var því skrýtið að standa allt í einu á þeim tímamótum að þurfa ekki lengur að vera í þessu hlutverki. Vera búin að skila af mér þessu stórkostlega, mikilvæga og krefjandi verkefni. Ekki það að ég sé hætt að vera mamma...ég þarf bara ekki að vera á sólarhringsvöktum lengur. Ég er búin að skila af mér stórkostlegum mannverum sem eru á fullu að skapa sitt eigið líf. Takast á við sínar glímur og sigra lífið sitt. Og ég er komin á hliðarlínuna, fæ að fylgjast með og vera til staðar ef á þarf að halda. Ég má núna setja fókusinn aftur á mig...


Og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Hver er ég aftur?

Hvað fannst mér gaman að gera einu sinni...hvað finnst mér gaman núna?

Hvað langar mig að upplifa? Hver erum við hjónin aftur?

Hvert vil ég fara, gera, verða......?


Ég held að þetta hafi verið stærsti þátturinn í því að ég endaði í Svartholinu...þessi tímamót í lífinu, sem ég var bara ekki tilbúin í. Vissi alvega að einn daginn kæmi að þessu, annað væri nú bara óeðlilegt.

Við förum í gegnum svo mörg tímamót í lífinu...fæðingu, skýrn, fermingu, útskrift, giftingu...öll þessi tímamót eru tilefni til að fagna, halda veislu og gleðjast.

En hvað með þessi tímamót? Þegar maður er búinn að skila af sér þessu stórkostlegu lífsverkefni að allir ungarnir eru flognir úr hreiðrinu?

Nei þau kallast að verða MIÐALDRA og þeim fylgir yfirleitt neikvæð merking.


Svoldið glatað, því þetta er í raun áfangi til að fagna, spennandi nýr kafli í lífinu að hefjast og svo margt hægt að gera.

En ég veit að margar konur hafa verið í þessum sömu sporum (og eflaust karlmenn líka). Finnast maður allt í einu ekki hafa neinn tilgang eða vera óþarfur. Ég fann kannski svona mikið fyrir því af því að ég er alein í nýju landi...alein með sjálfri mér, hugsunum mínum og pælingum. Og jú auðvitað manninum mínum...sem ég þurfti eiginlega að kynnast uppá nýtt eftir öll þessi ár í hringiðu lífsins.


Svona er lífið furðulegt...og kemur sífellt á óvart.


Með því að nýta þau tól og þekkingu sem ég bý yfir hef ég náð að skoða sjálfa mig ofaní grunninn, finna hvaða þörfum ég þarf að sinna betur og finna leiðir til að líða betur og komast út úr Svartholinu. Veit að þetta hljómar örugglega auðvelt...en þegar maður er heltekinn af myrkrinu þá er þetta als ekki auðvelt.


Eitt af því sem ég útskýri fyrir fólki sem kemur til mín í dáleiðslu er hversu mikilvægt er að framleiða stöðugt flæði af Serotonin. En Serotonin er eitt af vellíðunar hormónunum sem líkaminn framleiðir fyrir okkur þegar allt leikur í lyndi. Hins vegar þegar við sökkvum ofaní Svartholið hættir þessi framleiðsla og að sama skapi þegar Kvíðinn umlykur okkur yfirtaka streituhormómin allt. Og allt fer úrskeiðis. Ekkert virkar eins og það á að gera.


Ég hef í mörg ár unnið að því að hjálpa fólki að læra inná sig, ég held að það sé stærsta verkefnið í lífinu, að læra inná sjálfan sig og skilja hvað lætur mann tikka.

Eitt af því sem ég hef talað mikið um í fyrirlestrum og námskeiðum er að læra að taka stjórnina. Stjórna deginum og þar með stjórna líðaninni betur.


Ég byrjaði að tala um þetta fyrir mörgum árum, veit ekki af hverju, líklega bara í gegnum mitt eigið grams og löngun til að verða betri og hafa stjórn á minni líðan.


Núna þegar ég byrjaði í dáleiðslunáminu þá allt í einu blasti við mér það sem ég er búin að vera að tala um í öll þessi ár.

Til þess að skapa stöðugt flæði af Serotonin þarf maður að vanda sig við 3 hluti:

  1. Vera í jákvæðum samskiptum - við fólk sem lætur manni líða vel og sem við getum látið líða vel. Vera í tilgangsríkum samskiptum og samböndum.

  2. Vera virk á jákvæðan hátt - þ.e gera hluti sem láta okkur líða vel.

  3. Hugsa jákvætt - þá meina ég frá hjartanu, ekki bara þykjustunni jákvæðar hugsanir - sem eru samt betri en neikvæðar, en þær ná oftast ekki alveg í gegn. Þetta er yfirleitt erfiðasti parturinn...erfiðast að byrja þarna þegar maður er týndur í Svartholinu.


Þetta passar allt við það sem ég hef verið að segja um að læra að stjórna deginum...

  • Við þurfum að vita hvernig góður dagur lítur út, hvernig góð líðan lítur út.

  • Við þurfum að læra að þekkja einkennin þegar fer að halla undan fæti, læra að 'spotta' viðvörunarbjöllurnar.

  • Síðan þurfum við að vera með neyðaráætlun, sem við getum virkjað um leið og bjöllurnar fara að glymja. Eigum ekki að þurfa að hugsa, bara virkja!

Þetta er svoldið eins og brunaáætlun...þurfum að vita hvernig allt er þegar enginn eldur er, hvernig allt á að vera, læra að þekkja einkennin þegar eldur kviknar...reykur, lykt, hljóð, hiti... Og ef það er kviknað í þurfum við að bregðast strax við. Það er ekki momentið til að fara að hanna brunaáætlunina!!


Það er svo mikilvægt að vera með Viðbragðsáætlun.

Lista yfir þessa hluti sem láta okkur líða vel og hjálpa okkur að berjast á móti myrkrinu. Við getum líklega kallað þetta Serotonin lista.


Ég settist niður og skrifaði langan lista af alskonar hlutum sem skapa vellíðan, það voru ótrúlegustu atriði sem rötuðu á þennan lista...

Hér er smá sýnishorn af mínum Serotonin lista, ekkert mikilvægara en annað:

- Hjóla í ræktinni minni í 20 mínútur

- Taka góða hörku líkamsrækt

- Ganga frá í eldhúsinu áður en ég fer að borða

- Sitja á bekk og hlusta á náttúruna

- Spjalla við fjölskyldu og vini

- Lesa áður en ég fer að sofa

- Ekki nota símann uppí rúmi fyrir svefninn

- Skrifa blogg

- Hjólatúr með manninum mínum

- Hafa allt fínt og hreint heima

- Föndra, hekla

- Borða hollt og drekka vel af vatni

- Göngutúr

- Fara í heitt bað

- Hreinsa til í inboxinu í tölvupóstinum

- Borða kvöldmat fyrir kl. 19

- Hengja upp fötin mín í svefnherberginu mínu

- Búa um rúmið

- Borga reikninga

- Fara á fætur fyrir kl.9

- Spjalla við ókunnugt fólk

- Lakka neglurnar

- Setja upp andlitið

- Setja á mig maska

- Bera á mig body lotion

- Fara í sturtu

- Hlusta á eitthvað hvetjandi

- Læra nýja hluti

- Klæða mig upp

- Slökkva á sjónvarpinu

- Tala ekki við neinn, vera ein með sjálfri mér

- Borga skuldir

- Horfa á góða bíómynd með góðu fólki

- Hafa ekki drasl á borðstofuborðinu

- Hafa ekki of mikið að gera og hafa tíma fyrir mig

- Skoða nýja staði

Og svo fullt fleira...skrifaði 3 fullar blaðsíður.


Það sem mér fannst merkilegast við þennan lista er hvað það eru alskonar hlutir sem láta mér líða vel...og margt sem maður tekur bara sem sjálfsögðum hlut...eins og fara í sturtu, setja upp andlitið og klæða sig. Get sagt þér að verandi heima allan daginn að læra og vinna og þurfa ekki að fara út úr húsi eða eiga á hættu að einhver banki uppá...þá er voðalega einfalt að vera bara í kósýgallanum með úfið hár og stýrur í augunum fram eftir degi...en ég bursta nú alltaf tennnurnar!


Annað sem mér fannst áhugvert við listann er kontrastið (mótvægið heitir það líklega). Stundum þarf ég að tala við fólk en stundum hef ég bara þörf fyrir að vera með sjálfri mér. Stundum vil ég sitja á bekk, stara á trén og hlusta á fuglana og stundum þarf ég hörku klukkutíma rækt.


Þetta ýtrekar bara hvað það er mikilvægt að þekkja sjálfan sig og hlusta á sjálfan sig...innsæið. Taka mark á því sem er verið að segja þér innan frá...sem getur verið trikkí stundum, að vita hvort það er raunverulega ÞÚ sem ert að tala eða hvort það er púkinn á öxlinni...sem er vinur Svartholsins.


En nú er kominn tími til að hætta þessum skrifum og fara að gera eitthvað fleira á þessum lista...eins og t.d. að skreppa í ræktina og svitna út restinni af jólunum.


Ég hvet þig til að skrifa niður Serotonin lista, og væri skemmtilegt að fá komment frá þér, vita hvað þú settir á listann þinn. Kannski gefur það mér nýjar hugmyndir af hlutum til að bæta á minn lista.


Ást og umhyggja til þín og mundu bara að ef þú ert akkúrat núna í Svartholinu...það er leið út, það er birta, hlýja, litir, fiðrildi í maganum, gleði og góðir hlutir handan við hæðina. Haltu áfram ❤️


Halldóra

805 views0 comments
bottom of page