Vitundarvakning um breytingaskeiðið - Október er tileinkaður breytingaskeiðinu og alþjóðlegur dagur breytingaskeiðsins er 18. október.
Það eru rúm 2 ár síðan ég fór að gefa þessu blessaða skeiði gaum, tala opinskátt um það, deila minni reynslu, upplifun og uppgvötunum.
Það hefur margt batnað og breyst síðan ég fór að vera eins og babblandi bók og tala um það við alla með eyru hvort sem þeim líkar betur eða verr!
Upphaflega vildi ég bara vekja athygli á hversu fáránlega hefur verið haldið á spöðunum þegar kemur að þessu skeiði...enginn vissi neitt - hvorki konur né læknar - ekkert kerfi sem grípur mann, engin fræðsla, mikið af ranghugmyndum, konur ranggreindar og vanmeðhöndlaðar, margar í mikilli vanlíðan, dottnar út af vinnumarkaði og búnar að týna sjálfum sér!
Meðan einhverjar konur fara tiltölulega létt í gegnum þetta skeið eru mjög margar konur sem lifa við lífshamlandi einkenni sem skerða lífsgæði þeirra og valda vanlíðan.
Ég hef farið í þó nokkurn fjölda af viðtölum í útvarpi, sjónvarpi, blöðum og hlaðvörpum og haldið fyrirlestra bæði til að fræða konur, fyrirtæki og félagasamtök.
Á þessum tíma hef ég séð góða breytingu til batnaðar á nokkrum stöðum...
Konur vita aðeins betur hvað snýr upp og niður í þessum frumskógi
Konur eru farnar að þora að segja upphátt að þær séu á breytingaskeiðinu og tala um það við fólkið í kringum sig
Læknar eru aðeins að vakna upp, farnir að hlusta á konur þegar þær tala um breytingaskeiðið og orðnir betri í að greina og meðhöndla
Samfélagið er farið að veita þessu athygli og tabúið er smátt og smátt að dofna
En við þurfum að halda áfram og taka næstu skref, ryðja leiðina fyrir komandi kynslóðir, bæta enn frekar fræðslu, skilning og stuðning og halda áfram að útrýma TABÚINU sem hefur fylgt þessu skeiði í áratugi!!
Það hefur helling áunnist í að koma breytingaskeiðinu út úr myrkrinu, minnka tabúið, eyða skömminni og auka þekkingu og fræðslu ekki bara meðal kvenna heldur lækna og samfélagsins.
Mér finnst konur í auknum mæli þora að segja upphátt “Ég er á breytingaskeiðinu” án þess að skammast sín nokkuð fyrir það og krefjast þess að fá skilning og umburðarlyndi meðan einkennin herja á þær og hamla því að þær geti verið 100%.
En það sem ég er mest hrærð yfir er allur liðsaukinn sem breytingaskeiðið hefur fengið með ykkur kæru konur (og örfáir karlar) ❤️
Að sjá að þið eruð að deila fræðslunni, halda vitundarvakningunni á lofti, hjálpa öðrum konum að skilja hvað snýr upp og niður, hughreysta þær, sýna stuðning og krefjast breytinga… Það er eingöngu þannig sem breytingar til frambúðar eiga sér stað!!
Höldum áfram að tala hátt um þetta óumflýjanlega skeið sem ALLAR konur fara í gegnum, við erum rétt búnar að krafsa í yfirborðið, nóg eftir enn sem þarf að leiðrétta og laga ❤️❤️❤️
BURT MEÐ TABÚIÐ 👩🏻🤝👩🏼👊🏻
Comments